Ferill 221. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 221 . mál.


Ed.

364. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Frá minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Það var ljóst strax þegar frumvarp um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga var til umfjöllunar á Alþingi að í kjölfar slíkrar breytingar mundi fylgja óvissa og röskun á högum og réttindastöðu margra starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Því var nauðsynlegt, þegar frumvarpið hafði verið samþykkt, að grípa til aðgerða með góðum fyrirvara til að koma í veg fyrir slíkt.
    Þetta frumvarp tekur á takmörkuðum hluta þess vanda sem verður í málefnum fjölmargra starfsmanna víða um land þegar lög um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga taka gildi nú um áramótin. Enn er þó margt ófrágengið í þessum efnum og langt í frá að allt það starfsfólk, sem nú kvíðir óljósri eða verri réttarstöðu en áður vegna þessara breytinga, hafi fengið úrlausn sinna mála. Er gagnrýnivert hve seint er hér gripið til ráða til að leysa nokkurn hluta þess vanda sem við fólki blasir nú í annríki síðustu starfsdaga þingsins fyrir jólahlé.
    Minni hl. skilur mikilvægi þess að finna lausn á þessum vanda og setur sig ekki í meginatriðum á móti þeim aðgerðum sem hér eru boðaðar. Hins vegar kom í ljós við umfjöllun málsins í nefnd að sú lausn, sem hér er fundin, er einungis takmörkuð bráðabirgðalausn og þarfnast endurskoðunar. Því flytur minni hl. breytingartillögu þess efnis. Jafnframt kom í ljós að efni frumvarpsins varðar grundvallaratriði sem eru leiðir og aðferðir launþegahreyfinga í kjarabaráttu og tengist ágreiningi sem ríkir um þau mál innan allra launþegasamtaka.
    Einmitt þess vegna er gagnrýnivert að efni frumvarpsins skuli ekki hafa verið rækilegar kynnt fyrir samtökum launafólks, en það hefur komið í ljós að t.d. Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna hefur athugasemdir við frumvarpið.
    Minni hl. gerir breytingartillögur við 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins sem kynnt er á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 18. des. 1989.


Guðrún Agnarsdóttir.